Fiskistofa dregur til baka synjun fyrir veiðiheimild

Sjóskip var rétt í þessu að fá sent bréfsefni þar sem fram kemur að Fiskistofa samþykki upphaflegu umskónina og veiti félaginu þar með heimild til að halda sjóstangaveiðimót.

Þar sem Sjóskip fékk Landsamband sjóstangaveiðifélaga og lögmannstofu til að sjá um stjórnsýslukæruna og öll þau samskipti er varðaði upphaflegu synjunina þá mun Sjóskip bera þetta bréf undir þau áður en lengra er haldið varðandi skipulagningu á félagsmóti.

Engu að síður ber að fagna því að stofnunin hafi séð af sér varðandi synjunina sem hefur nú þegar tekið frá okkur skipulagða mótsdaga. Næstu skref ráðast að miklu leiti um heildarmyndina og þá umræddar breytingar sem gerðar voru á reglugerðinni sem urðu félögunum ofviða vegna íþyngjandi ákvæða.

Kærumálið og mótshald 2017

Nú er orðið ljóst að Sjóskip mun ekki geta haldið Aðalmót sem telur til Íslandsmeistara þetta árið vegna afstöðu Fiskistofu um að hvika ekki frá ákvörðun um synjun veiðiheimildar. Svarfrestur Fiskistofu til ráðuneytisins vegna stjórnsýslukæru okkar rann út í dag þannig að við ættum að fá innan fárra daga umsögn þeirra til skoðunar.

Í ljósi þess að þetta er komið svona langt á veg höfum við ákveðið að birta innihald kærunnar svo að félagsmenn og aðrir geti skilið hvers eðlis málið er fyrir og að hér sé fyrst og fremst verið að berjast fyrir réttlæti meðalhófsreglunnar en sem dæmi er okkur ekki kunnugt um að önnur félagssamtök séu skyldug að borga fyrir endurskoðanda og afhenda afrit af öllum kvittunum að fá umsókn viðurkennda.

Synjun Fiskistofu um vilyrði fyrir skráningu afla á opinberum sjóstangaveiðimótum árið 2017.

 1. Kæruefni og málsatvik

Þann 24. nóvember 2016 sendi Sjóstangaveiðifélags Skipaskaga (umbj. okkar) umsókn til Fiskistofu um vilyrði fyrir skráningu afla á opinberum sjóstangaveiðimótum árið 2017. Rétt er að geta þess að Landsambands sjóstangaveiðifélaga (SJÓL) sendi inn umsóknina f.h. umbj. okkar og annarra virkra aðildarfélaga. Þetta verklag gagnvart umsóknum hefur verið við líði undanfarin ár án athugasemda af hálfu stjórnvalda.

Umbj. okkar sótti um vilyrði fyrir skráningu afla á tveimur sjóstangaveiðimótum nánar tiltekið á Akranesi 24. -25. mars 2017, þar sem áætlaður afli er 12.000 kg. og á Akranesi 13. maí 2017 þar sem áætlaður afli er 6.000 kg. Líkt og fram kemur í synjun Fiskistofu fylgdu kostnaðaráætlanir vegna fyrirhugaðra móta, ársreikningur félagsins vegna ársins 2015 og samþykktir þess.

Í bréfi sínu dags. 10. febrúar 2017 synjaði Fiskistofa umbj. okkar um hið umbeðna vilyrði fyrir skráningu afla að öllu leyti.

Með ákvörðunum teknum sama dag synjaði Fiskistofa einnig öllum umsóknum allra annarra sjóstangaveiðifélaga innan SJÓL að undanskildu einu félagi sem er í ólíkri stöðu en hin þar sem það hefur ekki verið að halda sjóstangaveiðimót síðastliðin ár.

Umbj. okkar telur að synjun Fiskistofu sé ekki í samræmi við fyrirmæli laga og reglna.

Eftir að umbj. okkar var tilkynnt þessi niðurstaða Fiskistofu hefur SJÓL leitast við að fá Fiskistofu til að endurskoða afstöðu sína. Fiskistofa hefur ekki viljað gera það nema að ákveðnum skilyrðum fullnægðum. Umbj. okkar telur þau skilyrði einnig vera ólögmæt og umfram heimildir Fiskistofu.

Umbj. okkar er því nauðbeygður sá kostur að leita endurskoðunar innan stjórnsýslunnar með kæru.

 1. Nánar um kæranda, málsatvik og setningu reglugerðar nr. 916/2016

Átta sjóstangaveiðifélög starfa á landinu. Félögin eru dreifð um landið og starfa í Reykjavík, Akranesi, Ólafsvík, Ísafirði, Siglufirði, Akureyri, Neskaupsstað og Vestmannaeyjum. Sjóstangaveiðin er stunduð sem hrein áhugamannaíþrótt og á íþróttin sér langa sögu. Elstu félögin hafa haldið mót í yfir 50 ár en það yngsta hefur haldið mót í um 20 ár.

Sjóstangaveiðifélögin standa s.s. fyrir mótaröð á hverju sumri og krýna Íslandsmeistara í sjóstöng. Þessi mót eru skemmtilegir viðburðir sem hafa fjárhagslega og félagslega jákvæð áhrif fyrir þau sveitarfélög þar sem mótin eru haldin hverju sinni. SJÓL var á sínum tíma stofnað með það í huga að setja og fylgja eftir samræmdum reglum um Íslandsmeistaramótin og til að vera málsvari félaganna gagnvart stjórnvöldum. Í samræmi við það hefur SJÓL í gegnum árin komið fram fyrir hönd félagasamtakanna m.a. í samskiptum við stjórnvöld. Þessi umboðsmennska hefur í gegnum tíðina verið virt af hálfu stjórnvalda án athugasemda.

Fjárhagsleg áhrif af mótshöldunum eru óbein en engu að síður áþreifanleg í minni sveitarfélögum. Flest sjóstangaveiðifélögin hafa tamið sér það verklag að versla sem mest af nauðsynlegum aðföngum og þjónustu vegna mótanna í heimabyggð viðkomandi móts. Þessi nálgun byggir á ákveðnum samfélagslegum sjónarmiðum en er einnig til þess fallin að láta heimamenn hafa jákvæða aðkomu að mótunum. Til viðbótar við verslun sem stendur í beinum tengslum við mótshald þá er ljóst að í tengslum við mótin koma gestir til viðkomandi sveitarfélags til að dvelja á meðan á móti stendur. Þátttakendur eða áhorfendur koma gjarnan í félagsskap með vinum og fjölskyldu og hefur aðkoma fleiri gesta í bæinn eðli máls samkvæmt jákvæð áhrif á smásölu á svæðinu, sölu gistirýma, matsölu o.s.frv. Þá eru félagsleg jákvæð áhrif mótanna augljós.

Sjóstangaveiðifélögin, þ.m.t. umbj. okkar, eru rekin gagngert til þess að skipuleggja og halda mót. Þannig varðar nánast allur rekstur þessara félaga mótshald þeirra. Reksturinn er sjálfbær fyrir þær sakir að mótunum hefur verið úthlutaður ákveðinn afli til veiða. Sá afli hefur síðan verið settur á markað og nýta má söluandvirði til að greiða kostnað vegna viðkomandi móts. Ef það er hagnaður eru þröngar heimildir til að yfirfæra hagnað, að hámarki 3 milljónir, milli ára en annars þarf að skila hagnaði til Fiskistofu skv. fyrirmælum í núgildandi reglugerð. Félögin eru því ekki rekin í hagnaðarskyni og í raun er staðan sú að það væri ómögulegt að halda þessi mót ef ekki væri fyrir fjöldann allan af sjálfboðaliðum sem koma að og gefa vinnu sína í tengslum við þessi mót. Þá hafa félögin kappkostað, þegar mót eru rekin með tapi, að reyna að jafna stöðu félaganna hið fyrsta með því að leita utanaðkomandi stuðnings frá bæjarfélögum, fyrirtækjum eða öðrum félagasamtökum.

Í þá áratugi sem sjóstangaveiðimót hafa verið haldin hér á landi hefur verið almenn ánægja með þau og reynslan verið jákvæð.

Laga- og reglugerðarumhverfi í kringum þessi mót hefur þróast í áranna rás. Lengi vel var umgjörðin lítil sem engin enn í seinni tíð hefur mótast ákveðinn rammi. Framkvæmdin var alltaf nokkuð einföld í sniðum. Sjóstangaveiðifélögin lýstu yfir áhuga sínum til að halda mót og sóttu um afla til að halda þau og ráðuneytið samþykkti, án undantekninga, þessar umsóknir þeirra. Í seinni tíð fóru kröfurnar til umsókna félaganna og til þess hvernig mætti verja fjármunum vegna mótshalds að aukast hægt og bítandi. Sjóstangaveiðifélögin leituðust við að mæta þessum auknu kröfum eftir bestu getu. Félögin áttu ríka aðkomu að samningu fyrstu reglugerðarinnar um skráningu afla á opinberum sjóstangaveiðimótum. Í tengslum við undirbúning og samningu þeirrar reglugerðar voru haldnir nokkrir samráðsfundir, efni reglugerðarinnar mótað að teknu tilliti til athugasemda allra aðila enda náðist góð sátt um efni hennar. Þá hafa félögin aðstoðað stjórnvöld, sjávarútvegsráðuneytið og Fiskistofu, við útfærslu á ýmsum atriðum t.a.m. voru það félögin sjálf sem unnu grunn að umsóknareyðublöðum svo fátt eitt megi nefna. Hefur því í gegnum tíðina almennt verið gott samráð og samstarf milli félaganna og SJÓL annars vegar og viðeigandi stjórnvalda hins vegar.

Þess vegna koma það félögunum og SJÓL verulega að óvart hvernig staðið var að setningu reglugerðar nr. 916/2016 um skráningu afla á opinberum sjóstangaveiðimótum og enn fremur synjun Fiskistofu við umsóknum sjö félaganna, þ.m.t. umsókn umbj. okkar, um leyfi. 

Rétt er að víkja nokkrum orðum að aðdraganda setningar reglugerðar nr. 916/2016 þar sem efni þeirrar reglugerðar er megingrundvöllur synjunar Fiskistofu. Í síðari umfjöllun í kærunni verður síðan ítarlega farið yfir synjun Fiskistofu og rökstuðning hennar.

Að frumkvæði Fiskistofu var ráðist í að endurskoða og leggja til breytingar á reglugerð um sjóstangaveiði. Í tengslum við þá endurskoðun, og í anda þess góða samstarfs sem hefur verið við SJÓL síðastliðin ár og áratugi við stjórnvöld, var boðað til samráðsfundar, 24. október 2016, til að fara yfir framkomnar breytingartillögur. Fundur var haldinn og á honum kom formaður SJÓL á framfæri ákveðnum athugasemdum f.h. SJÓL en boðaði ennfremur að frekari athugasemdir yrðu sendar skriflega. Í framhaldi af samráðsfundinum sendi Arnór Snæbjörnsson hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu drög að reglugerð á aðila, þ.m.t. til Fiskistofu og SJÓL, og gaf færi á að umsögnum yrði skilað eigi síðar en 31. október 2016.  Þann 31. október 2016 sendi Stefán B. Sigurðsson, formaður SJÓL, Arnóri Snæbjörnssyni, sannarlega með tölvupósti, f.h. stjórnar SJÓL og formanna sjóstangaveiðifélaganna. Í viðhengi við þann póst voru athugasemdir sendar af hálfu SJÓL f.h. sjóstangaveiðifélaganna.

Ekki var brugðist við neinum athugasemdum SJÓL og engin afstaða tekin til þeirra. Reglugerðinni var breytt, í samræmi við tillögur Fiskistofu. Helstu efnislegu breytingarnar voru á ákvæðum 4. og 1. mgr.  5. gr. en þær breytingar eru dregnar fram með áherslubreytingum hér að neðan:

 4 gr.

Takmörkun við fénýtingu aflaverðmætis.

Einungis er heimilt að ráðstafa aflaverðmæti af opinberum sjóstangaveiðimótum, sem njóta vilyrðis skv. 1. mgr. 1. gr., til kostnaðar við mótshaldið, en til þess telst:

 1. Leigugjald á báti/bátum, þ.m.t. eldsneytis- og skipstjórnarkostnaður.
 2. Greiðsla veiðigjalds samkvæmt lögum um veiðigjöld eða, ef við á, uppbætur til eigenda skipa vegna gjaldanna, samkvæmt reikningi.
 3. Umsýslukostnaður, þ.m.t. vegna kynningar eða auglýsinga, skráningar gagna, kaupa á verðlaunagripum, kostnaðar af löndun, vigtun og sölu afla og annars sem er í nánum og eðlilegum tengslum við mótshaldið og uppgjör þess.

 Óheimilt er að ráðstafa verðmætinu til greiðslu launa til félagsmanna í sjóstangaveiðifélagi.

 1. gr.

Uppgjör og skil á umframtekjum.

Þegar uppgjöri kostnaðar vegna opinbers sjóstangaveiðimóts sem nýtur vilyrðis skv. 3. gr. er lokið, og eigi síðar en 1. nóvember ár hvert, skal mótshaldari senda Fiskistofu sundurliðaða greinargerð um ráðstöfun aflaverðmætis og kostnað af mótshaldi, sbr. 4. gr., staðfest af viðurkenndum bókara eða löggiltum endurskoðanda. Fiskistofu er heimilt að krefjast aðgangs að bókhaldsgögnum, telji stofnunin ástæðu til þess.

Þá var einnig gerð breyting á gildistöku þessarar breyttu reglugerðar. Á fyrri stigum í samskiptum aðila hafði alltaf verið lagt upp með að reglugerðin myndi ekki taka gildi fyrr en  1. janúar 2017 en svo fór að gildistökunni var flýtt, að því er virðist að beiðni Fiskistofu, til 4. nóvember 2016.

Sem fyrr getur kom það SJÓL og sjóstangaveiðifélögunum mjög að óvart að sjá reglugerðin samþykkta án þess að nokkurt tillit væri tekið til athugasemda þeirra. Á síðari stigum barst sú skýring frá Arnóri Snæbjörnssyni að hann hefði ekki móttekið tölvupóstinn sem sannarlega var sendur honum af hálfu formanns SJÓL. Eftir að ljóst varð að athugasemdirnar höfðu farið fyrir ofan garð og neðan bauð Arnór Snæbjörnsson SJÓL að koma til fundar til að ræða athugasemdir þeirra. Fundur átti sér stað og SJÓL kom athugasemdum sínum munnlega á framfæri við starfsmenn ráðuneytisins auk þess sem starfsmönnum Fiskistofu hefur einnig verið gerð grein fyrir þeim. Þrátt fyrir það hefur engin endurskoðun farið fram á hinni breyttu reglugerð né hafa verið gefin vilyrði um að slík vinna eigi, í ljósi aðstæðna, muni fara fram. SJÓL, umbj. okkar og önnur sjóstangaveiðifélög eru verulega óánægð með þetta verklag stjórnvalda og kalla eftir endurskoðun að viðhöfðu samráði við félögin.

III. Rökstuðningur kæru

Synjun Fiskistofu byggir á nokkrum sjónarmiðum en að því er varðar lagalegan grundvöll er vísað til laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og reglugerðar, nr. 916/2016, um skráningu á afla á opinberum sjóstangaveiðimótum. Verður nú farið yfir helstu sjónarmið Fiskistofu og gerð grein fyrir hvers vegna þau geta ekki verið lögmætur grundvöllur synjunar.

Litið framhjá lögmætum umboðsmanni, SJÓL. Afleiðingar og áhrif þess

Rétt er að geta þess að undir meðferð málsins sendi Fiskistofa umbj. okkar bréf þann 7. janúar 2016, þar sem gerðar voru athugasemdir við uppgjör félagsins og beðið um ákveðna skýringar og úrbætur. Sambærileg erindi voru send öðrum sjóstangaveiðifélögum. SJÓL sendi inn erindi vegna þessa f.h. umbj. okkar og annarra sjóstangaveiðifélaga. Var þetta gert í fullu umboði umbj. okkar. Í þessu erindi komu fram ýmsar umbeðnar skýringar og frekari rökstuðningur fyrir umsókn umbj. okkar en svo virðist sem Fiskistofu hafi talið sér fært að virða þær skýringar og þann rökstuðning að vettugi. Fiskistofa sendi SJÓL, en ekki einstaka félögum, erindi þann 30. janúar sl., þar sem fram kemur að Fiskistofa ætli ekki að fjalla efnislega um innihald bréfs SJÓL. Á hvaða forsendum Fiskistofa telur sér heimilt að haga framkvæmd með þessum hætti er ekki útskýrt sérstaklega en skýtur þetta óneitanlega skökku við þar sem SJÓL hefur frá stofnun, og án athugasemda frá stjórnvöldum, komið fram f.h. félaganna og það í umboði þeirra. SJÓL var m.a. stofnað til að sinna þessu hlutverki. Eins og fram kemur í Stjórnsýslurétti – Málsmeðferð eftir Pál Hreinsson eru ekki lögfest nein almenn hæfisskilyrði umboðsmanna aðila máls.

Verður ekki betur séð en að þessi háttsemi, þ.e. að virða að vettugi sjónarmið og skýringar kæranda, hafi leitt til brota gegn fyrirmælum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.) og meginreglna stjórnsýsluréttar. Með því að taka ekki tilli til þeirra athugasemda og sjónarmiða sem fram koma í erindi SJÓL er brotið í bága við rökstuðningsregluna, þá virðist sem áskilnaði rannsóknarreglunnar hafi ekki verið fullnægt auk þess sem leiða má líkum að því að þessi meðferð hafi leitt til brots gegn rannsóknarreglunni. Verður nánar vikið að þessu í síðari umfjöllun.

Synjun send á rangt heimilisfang. Brot á birtingarreglu stjórnsýsluréttarins.

Þrátt fyrr að það skipti ekki máli varðandi niðurstöðu Fiskistofu þá er það til marks um hversu óvandaðir stjórnsýsluhættir voru viðhafðir við afgreiðslu málsins að Fiskistofa sendi skrifleg erindi á rangt heimilisfang.

Sjóstangaveiðifélag Skipaskaga er skráð til heimilis að Bakkaflöt 9, 300 Akranesi en synjunin var send að Vogabraut 58, 300 Akranesi. Engar skýringar voru veittar fyrir þessari tilhögun en hún felur í sér brot á birtingarreglu stjórnsýsluréttar.

Ágreiningur um túlkun á 4. gr. rgl. Um tæka lögskýringu og lögmætisregluna

Í synjun Fiskistofu er gerð athugasemd við ákveðna kostnaðarliði sem tilgreindir voru í kostnaðaráætlun umbj. okkar og uppgjörum fyrri ára.

Virðist á því byggt af hálfu Fiskistofu að umræddir kostnaðarliðir séu ekki í nægjanlega nánum og eðlilegum tengslum við mótshald og uppgjör þess til þess að heimilt sé að nýta söluandvirði til greiðslu þeirra með vísan til 4. gr. reglugerðar nr. 969/2016.

Ákvæði 4. gr. reglugerðarinna er svohljóðandi:

Einungis er heimilt að ráðstafa aflaverðmæti af opinberum sjóstangaveiðimótum, sem njóta vilyrðis skv. 1. mgr. 1. gr., til kostnaðar við mótshaldið, en til þess telst:

 1. Leigugjald á báti/bátum, þ.mt. eldsneytis- og skipstjórnarkostnaður.
 2. Greiðsla veiðigjalda samkvæmt lögum um veiðigjöld, eða ef við á, uppbætur til eigenda skipa vegna gjaldanna, samkvæmt reikningi.
 3. Umsýslukostnaður, þ.m.t. vegna kynningar eða auglýsinga, skráningar gagna, kaupa á verlaunagripum, kostnaðar af löndun, vigtun og sölu afla og annars sem er í nánum og eðlilegum tengslum við mótshaldið og uppgjör þess.

Fiskistofa vísar í synjun sinni til þess að í kostnaðaráætlun umbj. okkar sé gert ráð fyrir því að nýta söluandvirði að hluta til að greiða kostnað vegna:

 • vinnu vegna undirbúnings móta (35.000,- v/ beggja móta),
 • aðstöðu, matar, tónlistar og aksturs vegna verðlaunaafhendingar (650.000,- v/ beggja móta),
 • 4% gjald til SJÓL (130.000 fyrir árið).

Síðan segir í synjun Fiskistofu varðandi þessa kostnaðarliði: „Umsækjandi gerir ekki frekari grein fyrir því, hvernig hann telur að þessi kostnaður falli undir þann kosntað sem heimilt er að greiða af aflaverðmæti á mótunum skv. 4. gr. reglugerðar nr. 916/2016.“

Fiskistofa gerir ekki aðeins athugasemd við tilgreiningu þessara kostnaðarliða í kostnaðaráætlun umbj. okkar heldur finnur einnig að því að söluandvirði vegna sjóstangaveiðimóta félagsins sem haldin voru 2016 hafi verið nýtt að hluta til greiðslu þessara kostnaðarliða. Reyndar er einnig hnýtt í að greiddur hafi verið kostnaður „vegna nestis fyrir keppendur, skipstjóra og aðstoðarmenn“ og „vegna aðstöðu og kaffiveitinga á bryggju“. Segir síðan í synjun Fiskistofu: „Umsækjandi gerði ekki grein fyrir því hvernig þessi kostnaður gæti talist í svo beinum tengslum við framkvæmd móts að heimilt væri að greiða hann af söluandvirði afla á mótunum, skv. 4. gr. reglugerðar nr. 916/2016, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 969/2013.“ Örlítið seinna í textanum má finna enn eina aðfinnsluna vegna þessara „fjarlægu kostnaðarliða“ en þar segir „Hinn 4. janúar 2017 sendi Fiskistofa bréf til umsækjanda, þar sem gerðar voru athugasemdir við áform hans um að nota söluandvirði afla á fyrirhuguðum sjóstangaveiðimótum til að greiða kostnað vegna verðlaunaafhendingar, setningar móts o.fl. Var umsækjanda leiðbeint um að slík ráðstöfun aflaverðmætis af opinberu sjóstangaveiði væri ekki í samræmi við heimild 4. gr. reglugerðar nr. 916/2016, um skráningu afla á opinberum sjóstangaveiðimótum.“

Vegna þessa hafði SJÓL einmitt sent Fiskistofu m.a. fyrir hönd umbj. okkar athugasemd við þessa túlkun eða þennan skilning Fiskistofu á afmörkun 4. gr. reglugerðarinnar. Í erindinu segir, n.t.t.: „Í bréfi Fiskistofu segir að kostnaður vegna verðlaunaafhendingar og mótsendingar og fleiri atriða séu ekki í samræmi við 4. grein reglugerðarinnar. Þessu erum við alveg ósammála og teljum að bæði mótssetningin og verðlaunaafhendingin séu í eðlilegum tengslum við mótshaldið. Þetta er að sjálfsögðu stór hluti af mótshaldinu þar sem allir þátttakendur hittast, mótið kynnt og síðan niðurstaða þess, veiðiplássum úthlutað til keppenda, verðlaun veitt og farið yfir gang viðkomandi móts.“

Það er ekki hlutverk Fiskistofu að skýra ákvæði 4. gr. reglugerðarinnar þrengra en orðalag ákvæðisins kveður á um. Stjórnvöld eru í störfum sínum bundin af lögmætisreglunni, þ.e. ákvarðanir þeirra þurfa að vera í samræmi við og eiga stoð í lögum. Til þess að þessi regla hafi vægi í samræmi við mikilvægi þurfa stjórnvöld að beita og túlka lögin í samræmi við almennt viðurkennd lögskýringarsjónarmið. 

Hér virðist Fiskistofa, án nokkurs sérstaks rökstuðnings, hafa ákveðið að fella tiltekin atriði út fyrir gildissvið 4. gr. reglugerðarinnar þrátt fyrir að orðalag ákvæðisins gefi fullt tilefni til að ætla að umrædd atriði falli innan gildissviðsins og rúmlega það.

Þá verður ekki framhjá því litið að þessi órökstudda skýring Fiskistofu er í ósamræmi við fyrri framkvæmd og er verulega íþyngjandi.

Samanburður á staðfestum gögnum. Um heimildir, lögmæti og forsvaranlegt mat

Í synjun Fiskistofu er vísað til þess að starfsmenn Fiskistofu hafi framkvæmt samanburð á uppgjörum sem umbj. okkar hafði skilað inn, vegna opinberra sjóstangaveiðimóta á hans vegum árið 2015 og ársreikningi vegna ársins 2015. Fiskistofa heldur því fram að þessi samanburður, sem starfsmenn stofnunarinnar framkvæmdu, hafi leitt í ljós mun á þeim kostnaði sem tilgreindur var í innsendum uppgjörum annars vegar og rekstrarreikningi hins vegar.

Rétt er að geta þess að ekkert liggur frammi sem gefur tilefni til að ætla að þeir starfsmenn Fiskistofu sem framkvæmdu þennan samanburð hafi nokkra þekkingu á reikningshaldi og bókhaldi. Þá hafa ekki verið gefnar neinar upplýsingar um hvernig umræddur samanburður var framkvæmdur af hálfu Fiskistofu, þ.e. hvað var verið að bera saman og hvaða forsendur voru lagðar til grundvallar og hvaða reikningsaðferðum var beitt.

Í synjuninni fullyrðir Fiskistofa að þessi óljósi samanburður hafi leitt í ljós að tilgreindur heildarkostnaður vegna móts sem haldið var í júní 2015 hafi verið kr. 1.065.313,- samkvæmt ársreikningi en kr. 1.199,193,- samkvæmt innsendu uppgjöri vegna mótsins. Síðan segir orðrétt „Svo virðist því sem umsækjandi hafi í báðum tilvikum gefið Fiskistofu upplýsingar um meiri kostnað en hann raunverulega hafði af umræddu mótshaldi.“

Af hálfu umbj. okkar er gerð alvarleg athugasemd við þetta verklag Fiskistofu,  þennan heimatilbúna og heimildarlausa samanburð starfsmanna Fiskistofu og niðurstöður hans. Þá er þessari aðdróttun um ranga upplýsingagjöf mótmælt sérstaklega. Aðdróttun þessi er sett fram án teljandi rökstuðnings auk þess sem hún er einfaldlega röng.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 969/2013, og í forvera umrædds ákvæðis í 5. gr. reglugerðar nr. 969/2013, er gerður áskilnaður um að mótshaldari sendi Fiskistofu sundurliðað yfirlit um ráðstöfun aflaverðmætis og kostnað af mótshaldi, sbr. 4. gr., staðfest af bókara eða endurskoðanda.

Umbj. okkar skilaði inn umbeðnum gögnum í fullkomnu samræmi við þennan áskilnað. Þannig hafði umbj. okkar fengið löggildan endurskoðanda til að yfirfara allan kostnað, með hliðsjón af 4. gr. reglugerðarinnar, og staðfesta innsent yfirlit yfir kostnaðinn. Að sama skapi hafa innsendir ársreikningar umbj. okkar verið unnir af endurskoðanda, síðan áskilnaður um slíkt var settur inn í reglugerð.

Hvergi í lögum eða reglugerð er mælt fyrir um að starfsmenn Fiskistofu eigi eða hafi heimildir til að framkvæma samanburð á staðfestum skjölum. Þá liggur ekkert frammi sem gefur tilefni til að ætla að starfsmenn Fiskistofu hafi reynslu, þekkingu eða kunnáttu til að  endurskoða eða rengja skjöl sem eru staðfest af sérfræðingum, endurskoðendum eða bókurum. Ef tilefni væri til að ráðast í slíka rannsóknarvinnu hefði hugsanlega verið eðlilegra að fá skattrannsóknarstjóra til að líta á bókhald félaganna og meta lögmæti þeirra. A.m.k. má ætla að þar innanhúss séu sérfróðir aðilar sem eru bærir til, og hafa heimildir til, að leggjast í slíka rannsókn. 

Auðvitað á þetta ósamræmi sér eðlilega skýringar. Þannig segir t.a.m. í áðurgreindu erindi sem SJÓL sendi f.h. umbj. okkar m.a. um þetta atriði: „Við teljum að það sé ekki óeðlilegt að slíkur munur komi fram. Félögin eru ekki stofnuð einungis dagana sem mótin fara fram heldur fer félagstarfsemin fram allt árið þó að mótin séu lykilatriði starfseminnar og félögin myndu leggjast af ef mótin væru ekki haldin. Ekki kemur fram í bréfinu hvaða atriði í uppgjörum/ársreikningum það eru sem Fiskistofa telur að breyta þurfi.“

Af hálfu umbj. okkar eru þessar athugasemdir sem byggt er á í synjun Fiskistofu og byggja á óskýrum og óljósum samanburði sem framkvæmdur var af starfsmönnum Fiskistofu sem virðast ekki hafa neina sérstaka þekkingu á bókhaldi, reikningsskilum eða gerð ársreikninga þess eðlis að þær beri að virða að vettugi. Þarna er verið að rengja vinnubrögð sérfræðinga, sem starfa á grundvelli löggildingar, án þess að það sé útskýrt sérstaklega og án heimildar eða þekkingar til slíks. Verður ekki séð að samanburður af þessum toga geti falið í sér forsvaranlegt mat líkt og áskilið er skv. meginreglu stjórnsýsluréttarins.  Synjun getur ekki verið reist á þessum samanburði.

Umbj. okkar skilaði inn umbeðnum gögnum, sem eru í samræmi við fyrirmæli laga og reglugerðar. Staðfest af þar til bærum aðilum. Á grundvelli þessara gagna hefði Fiskistofa átt að samþykkja umsókn umbj. okkar.

Ef Fiskistofa stendur raunverulega í þeirri trú að eitthvað óeðlilegt sé í gangi í bókhaldi umbj. okkar og annarra sjóstangaveiðifélaga væri líklega eðlilegast að Fiskistofa kæmi ábendingu um slíkt á framfæri við þar til bært stjórnvald s.s. skattrannsóknarstjóra. Ætla má að slíkur verkferill væri eðlilegur, sanngjarn og í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Sjálftaka Fiskistofu í endurskoðun bókhalds getur varla talist heppilega eða í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.

Í tengslum við þetta atriði er rétt að geta þess að á símafundi dags. 9. mars 2017 ræddu undirrituð í félagi við stjórn SJÓL við nokkra starfsmenn sem áttu aðkomu að undirbúningi ákvörðunar Fiskistofu í máli umbj. okkar og annarra sjóstangaveiðifélaga.  Á þeim fundi virtist sem einhvers misskilnings gætti hjá starfsmönnunum þar sem a.m.k. hluti þeirra stóð í þeirri trú að ekkert eða einungis örfá sjóstangaveiðifélög hefðu skilað inn yfirlitum og ársreikningum sem höfðu verið staðfestir af endurskoðanda eða bókara. Virtist koma þeim nokkuð að óvart þegar þetta var leiðrétt enda er staðreyndin sú að öll félögin nema eitt skiluðu inn staðfestum gögnum í samræmi við áskilnað.

Umbj. okkar var, líkt og fram hefur komið, einn af þeim sem skilaði öllum gögnum inn í samræmi við áskilnað laga og reglna. Umbj. okkar telur að þessi skil eigi að vera fullnægjandi og að samanburður Fiskistofu eigi ekki að hagga við því.

Krafa Fiskistofa um breytingar, skýringar og gögn. Um meðalhóf og afturvirkni

Fiskistofa gerði kröfu um að umbj. okkar myndi breyta áætlunum sínum vegna fyrirhugaðra móta 2017 til að mæta athugasemdum Fiskistofu. Þannig þyrfti umbj. okkar að leggja hina þröngu túlkun Fiskistofu á því hvaða kostnaðarliðir teljast í eðlilegum tengslum við mótshald til grundvallar og senda inn nýja áætlun. Umbj. okkar hefur hins vegar, líkt og framan getur, talið að túlkun sú sem Fiskistofa hefur byggt á sé einfaldlega röng og eigi sér ekki stoð í skráðum lögum og reglum. Þess vegna var ekki send inn breytt áætlun.

Þá gerði Fiskistofa kröfu um að leiðrétt uppgjör vegna ráðstöfunar aflaverðmætis af mótum sem hann stóð fyrir árið 2016 yrðu send inn. Þessi leiðrétting átti væntanlega að eiga sér stað til að samræmast niðurstöðu samanburðar starfsmanna Fiskistofu. Sem fyrr getur taldi umbj. okkar sig þegar hafa framfylgt áskilnaði laga og reglna að þessu leyti með því að skila inn yfirliti og ársreikningi, hvoru tveggja verandi staðfest af löggildum endurskoðanda.

Þá var lagt að umbj. okkar, með vísan til 2. málsl. 5. gr. reglugerðar nr. 916/2016, að skila til Fiskistofu afritum af bókhaldsgögnum vegna alls kostnaðar sem umbj. okkar greiddi af aflaverðmæti sjóstangaveiðimóta sem félagið stóð fyrir á árunum 2015 og 2016. Umbj. okkar telur að þessi krafa Fiskistofu gangi alltof langt, sé studd tilvísun til afturvirkrar beitingar reglugerðarákvæðis og sé því ólögmæt.

Nánar tiltekið telur umbj. okkar í fyrsta lagi með öllu óljóst á hvaða grundvelli krafan er gerð og af hverju verið er að óska eftir þessum gögnum. Það liggur fyrir að búið er að skila inn staðfestum yfirlitum og ársreikningum í samræmi við áskilnað laga og reglna og virðist brjóta í bága við sjónarmið um meðalhóf að neyða umbj. okkar til að tína til öll bókhaldsgögn vegna margra ára til að leggja mat á umsóknir vegna ársins 2017. Þá liggur ekkert fyrir sem gefur tilefni til að ætla að starfsmenn Fiskistofu hafi fullnægjandi þekkingu til að leggja mat á hin umbeðnu gögn. Vísast til fyrri umfjöllunar um samanburð Fiskistofu á staðfestum gögnum.

Í annan stað þá kom krafa um skil á bókhaldi fyrst inn í reglugerð með síðustu breytingum á henni. Krafan kom því fyrst inn og í gildi 4. nóvember 2016. Reglan hlýtur, líkt og aðrar reglur í íslensku réttarhverfi, að eiga að virka framvirkt. Þannig geti hún verið grundvöllur fyrir beiðni um bókhald vegna ársins 2017 en ekki vegna áranna 2016 hvað þá 2015.

Aðrar meginreglur stjórnsýsluréttarins

Þegar litið er heildstætt á afgreiðslu Fiskistofu og samskipti við Fiskistofu í tengslum við afgreiðslu málsins er ýmislegt sem gefur tilefni til að ætla að vinnubrögð stjórnvaldsins hafi ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.

Líkt og þegar hefur verið vísað til í kæru þessari var ekki tekin afstaða til röksemda sem SJÓL tefldi fram f.h. umbj. okkar undir meðferð málsins. Þannig brýtur rökstuðningur Fiskistofu fyrir synjun gegn rökstuðningsreglunni en gefur einnig tilefni til að ætla að hugsanlega hafi fleiri meginreglur stjórnsýsluréttarins verið brotnar.

Þannig er hætt við því að rannsóknarreglan hafi verið brotin. Samkvæmt henni ber stjórnvaldi áður en það getur tekið ákvörðun í máli að rannsaka það og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik. Undir meðferð málsins hafði SJÓL f.h. umbj. okkar gagngert bent á að Fiskistofa væri að leggja rangar upplýsingar til grundvallar eða væri að draga hæpnar eða rangar ályktanir af gögnum um málsatvik. Þessar athugasemdir voru eins og aðrar virtar að vettugi af hálfu Fiskistofu.

Að sama skapi er hætt við því að andmælareglan hafi verið brotin en hún felur í sér að málsaðili skuli eiga þess kost að gæta réttar síns og hagsmuna með því að kynna sér gögn máls, tjá sig um framkomnar upplýsingar og koma að frekari upplýsingum og viðhorfum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli hans. Með því að útiloka það sem fram kom í erindi SJÓL f.h. umbj. okkar var í raun verið að hindra umbj. okkar í að neyta andmælaréttar síns.

Til viðbótar við framangreint þá kom það skýrt fram í samskiptum við Fiskistofu að það var forsaga aðila sem hafði veruleg áhrif á niðurstöðu málsins. Fiskistofa hefur haldið því fram að aðildarfélög SJÓL hafi ekki staðið rétt að upplýsingagjöf í gegnum tíðina og stendur í þeirri trú að Fiskistofa hafi verið að afgreiða umsóknir þeirra með ívilnandi hætti. Síðan virðist sem Fiskistofa hafi af einhverjum ástæðum metið það svo, fyrir afgreiðslu umsókna vegna móta árið 2017, að nú væri rétt að sýna frekari hörku. Þannig virðist sem að einhverju leyti sé verið að refsa umbj. okkar fyrir fyrri háttsemi umbj. okkar og annarra aðildarfélaga SJÓL. Þrátt fyrir að vísað hafi verið til þessarar forsögu, ítrekað, í munnlegum samskiptum er ekki byggt á því að forsagan hafi áhrif í rökstuðningi fyrir synjun. Þessi vinnubrögð, ef hliðsjón er höfð af t.a.m. álitum umboðsmanns Alþingis, telst ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.

Synjun kærð

Niðurstaða Fiskistofu er rökstudd með vísan til þeirra atriða sem nú hefur verið vísað til hér að framan.

Á fyrrnefndum símafundi sem fram fór þann 9. mars sl., var bent á öll þau atriði sem nú hafa verið tilgreind í kæru þessari og fleira. Óskað var eftir því að fá afstöðu Fiskistofu til þess, að teknu tilliti til nefndra atriða, hvort Fiskistofa teldi tilefni til að endurupptaka málin að eigin frumkvæði eða á grundvelli beiðna aðila. Fiskistofa taldi ekki tilefni til að taka málin upp að eigin frumkvæði. Að því er varðaði endurupptöku skv. beiðni þá var einfaldlega áréttuð sú afstaða Fiskistofu sem fram kom í synjunarbréfunum til umbj. okkar og annarra sjóstangaveiðifélaga. Virtist afstaða Fiskistofu vera skýr og afdráttarlaus. Fiskistofa taldi forsendu frekari endurskoðunar vera að stofnunni yrði veittur aðgangur að bókhaldsgögnum vegna áranna 2015 og 2016 til að hægt væri að leiða í ljós raunverulegan kostnað við mótshald umbj. okkar. Þá yrði að gera nauðsynlegar breytingar á áætlunum í samræmi við túlkun Fiskistofu á 4. gr. reglugerðar nr. 916/2016. Fiskistofa hafði í hyggju, þrátt fyrir allt, að halda að fullu við þau sjónarmið og/eða athugasemdir sem fram komu í synjunarbréfunum. Vegna þessa lítur umbj. okkar svo á að honum sé nauðbeygður sá kostur að kæra þessa ákvörðun til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og gera þá kröfu að umþrætt ákvörðun Fiskistofu verði felld úr gildi og umsókn umbj. okkar samþykkt.

Það er nauðsynlegt að óska eftir skjótri afgreiðslu á kæru þessari í ljósi þess að tímabil sjóstangaveiðimóta er þegar hafið og ef það á að reyna að bjarga sumrinu a.m.k. að hluta þarf niðurstaða ráðuneytisins að liggja fyrir hið fyrsta. 

Fiskistofa er með undir höndum öll gögn málsins. Ef þörf krefur eru undirrituð f.h. umbj. okkar reiðubúinn að leggja fram frekari gögn og/eða skýringar.

Lokaorð:
Sjóskip hefur að auki ávallt efast um réttmæti Fiskistofu þar sem skýrt kemur fram í lögum um stjórn fiskveiða í 2. kafla. 6.gr. að það sé í höndum ráðherra að ákveða árlega aflaheimild enda sérstaklega tekið fram sjóstangaveiðimót en ekki frístundaveiðar eða  veiðar fyrir ferðaþjónustu. Kæran okkar snýr ekki að þessu atriði en ljóst er að lögfróðir aðilar telja full erindi til að skoða þetta mál ennfrekar á grundvelli umræddra laga.

Varðandi sjóstangaveiðimót Sjóskips 2017

Kæru félagsmenn.

Í upphafi árs fékk Sjóskip sem og önnur sjóstangaveiðifélög synjun frá Fiskistofu varðandi veiðiheimild fyrir árið 2017 en það er í fyrsta skiptið sem slíkt gerist í tæplega 60 ára sögu á opnum sjóstangaveiðimótum við strendur landsins. Landsamband sjóstangaveiðifélaga hefur síðustu mánuði unnið að sáttarleið sem ekki hefur skilað árangri og því nauðsynlegt að færa málið á næsta stig sem er embættiskæruferli.

Staða mála hjá Sjóskip er því sú að erfitt er að segja til um hvort félagið nái að halda Ílslandsmeistaramót á Akranesi þetta árið.

Kv,
Sjóskip